top of page

Hvað er sjálfbær ferðaþjónusta?

Sjálfbær ferðaþjónusta á Íslandi leggur áherslu á að lágmarka neikvæð áhrif ferðaþjónustunnar á náttúru, samfélag og menningu, á sama tíma og hún stuðlar að jákvæðum áhrifum á efnahag og lífsgæði íbúa. Hún skapar einnig jákvæða upplifun fyrir gesti og tryggir sjálfbæran rekstur til framtíðar.

Sjálfbær Ferðaþjónusta

Það er algengt að sjálfbærni sé útskýrð út frá þremur meginstoðum: umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum þáttum. Þessi nálgun, oft nefnd „þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar“ (e. three pillars of sustainability).

Í ferðaþjónustu er þó þörf á ítarlegri nálgun sem tekur mið af þeim sérstæðu áskorunum og áhrifum sem greinin hefur á samfélög, náttúru, dýralíf og menningu. Þess vegna hefur Alþjóðaráðið um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC) mótað viðmið sem byggja á fjórum meginflokkum í stað þriggja og hér er stuðst við þau.

A. Sjálfbær stjórnun (e. Sustainable Management)

Ferðaþjónusta skal byggjast á skýrri stefnumótun og ábyrgri stjórnun sem styður við langtíma sjálfbærni. Undir þetta fellur meðal annars upplifun gesta, öryggi, fræðsla og miðlun upplýsinga til gesta. Mikilvægt er að starfsemi sé í samræmi við lög og reglugerðir sem gilda um ferðaþjónustu, öryggismál, náttúruvernd, vinnuvernd og önnur viðeigandi svið. Fylgni við laga- og reglugerðarkröfur er grundvöllur sjálfbærrar starfsemi og styður við ábyrga stjórnun, gegnsæi og traust meðal hagsmunaaðila.

B. Samfélagsleg og efnahagsleg áhrif (e. Socioeconomic Impacts)

Markmiðið er að hámarka jákvæð áhrif með því að skapa störf fyrir heimafólk, tryggja sanngjörn og örugg vinnuskilyrði og stuðla að jöfnum tækifærum óháð kyni, uppruna eða öðrum félagslegum þáttum. Ferðaþjónustan ætti að virða mannréttindi og tryggja að engin mismunun, þvinguð vinna eða barnavinna eigi sér stað innan starfseminnar eða í aðfangakeðjunni. Mikilvægt er að efla staðbundinn efnahag með því að styðja við vörur og þjónustu úr nærumhverfi og tryggja að ávinningurinn af ferðamennsku skili sér til heimamanna. Á sama tíma er mikilvægt að draga úr neikvæðum áhrifum, svo sem auknu húsnæðisverði eða þrýstingi á innviði. Með því að vinna með samfélögum og hagsmunaaðilum að sjálfbærri þróun getur ferðaþjónustan gegnt mikilvægu hlutverki í að byggja upp sterkari, sjálfbærari og sanngjarnari áfangastaði.

C. Menningarleg áhrif (e. Cultural Impacts)

Ferðaþjónustan á að vernda og efla þann menningararf sem gerir áfangastaði einstaka. Sjálfbær ferðaþjónusta ber virðingu fyrir menningarlegri fjölbreytni og stuðlar að varðveislu hefða, siða, tungumála og lífsstíla heimamanna. Mikilvægt er að menningarminjar, hvort sem þær eru áþreifanlegar (eins og sögulegar byggingar og minnismerki) eða óáþreifanlegar (eins og sagnahefðir og listsköpun), njóti verndar og séu ekki röskunarhættu vegna ferðamennsku. Ferðaþjónusta ætti að vinna í nánu samstarfi við heimamenn, tryggja að menning þeirra sé sýnd af virðingu og forðast hvers kyns rómantíseringu, staðalímyndir eða afskræmingu. Jafnframt þarf að tryggja að markaðsefni gefi raunsanna mynd af menningu og samfélagi áfangastaðarins. Með því að skapa rými fyrir staðbundna menningu og veita gestum tækifæri til að kynnast henni á ábyrgan og virðingarfullan hátt, stuðlar ferðaþjónustan að menningarlegri sjálfbærni og eflingu samfélagslegra tengsla.

D. Umhverfisáhrif (Environmental Impacts)

Mikilvægt er að draga úr neikvæðum áhrifum á náttúru og vistkerfi með því að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, orkunotkun, úrgang og vatnsnotkun. Ferðaþjónustan þarf að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu og vernd líffræðilegrar fjölbreytni, meðal annars með því að forðast röskun á viðkvæmum svæðum og vinna með náttúrulega burðargetu svæða. Þá er lögð áhersla á að dýravelferð sé virt, hvort sem um ræðir villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi eða dýr sem tengjast ferðaþjónustu með beinum hætti. Notkun dýra í afþreyingu skal ávallt byggjast á velferð þeirra, og mikilvægt er að koma í veg fyrir misnotkun, óviðeigandi meðferð eða ónáttúrulegt atferli sem stafar af inngripi mannsins. Með fræðslu til gesta um mikilvægi náttúruverndar og dýravelferðar, og með því að veita þeim vistvæna valkosti, getur ferðaþjónustan orðið leiðandi í því að vernda umhverfið og lífríki þess.

Sjalfbaerni-768x727.png

Hin almenna sjálfbærni nálgun

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Eflaust hafa flest/ir einhvern tímann heyrt um

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. SDG Goals).

En þau eru 17 talsins og miða að því að stuðla að sjálfbærri þróun á öllum sviðum samfélagsins – frá efnahagslegri framþróun, menntun, dýra og umhverfisvernd, jafnréttis og bættra lífsskilyrða fyrir alla/öll. Viðmiðin hjá Alþjóðaráðinu (GSTC) eru byggð á þessum markmiðum.

Leiðandi í sjálfbærri þróun Íslensk ferðaþjónusta til 2030

Íslenska stjórnarráðið hefur sett þá framtíðarsýn að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu. Þessi stefna er hluti af heildarsýninni Íslensk ferðaþjónusta til 2030 og markar skýra stefnu í átt að ábyrgari og sjálfbærari starfsemi innan greinarinnar.

Í samræmi við þessa stefnu hefur Ferðamálastofa Íslands gerst greiðandi félagi í Alþjóðaráðinu um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC). Með því sýnir Ísland vilja til að fylgja alþjóðlegum viðmiðum, efla samræmi í sjálfbærniverkefnum og stuðla að langtímalausnum sem taka mið af samfélagslegum, menningarlegum, efnahagslegum og umhverfislegum þáttum.

Hvar skal byrja ?

Stjórnarráð Íslands gaf í október 2021 út verkfærakistu sem veitir fyrirtækjum leiðbeiningar um hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Verkfærakistan sýnir hvernig hægt er að aðlaga starfsemi, áætlanir og árangursmælingar að heimsmarkmiðunum.

Verkfærakistan byggir á erlendum fyrirmyndum og inniheldur dæmi frá Íslandi. Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni – veitti ráðgjöf við mótun efnisins. Hún er verðmætur leiðarvísir fyrir fyrirtæki sem vilja vinna markvisst að sjálfbærri þróun.

Hægt er að nálgast hana hér: 

Verkfærakista um heimsmarkmiðin fyrir fyrirtæki

Hjálpargögn Vakans

Vakinn er opinbert gæða- og umhverfisvottunarkerfi fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og hefur verið í boði frá árinu 2012. Ferðamálastofa hefur umsjón með kerfinu, og viðmiðin hafa verið þróuð í nánu samstarfi við hagaðila innan greinarinnar.

Viðmið Vakans veita fyrirtækjum leiðsögn og fylgja þeim ýmis hjálpargögn sem hægt er að nýta til að bæta starfshætti. Þróun viðmiða byggir m.a. á ISO stöðlum fyrir ævintýraleiðsögn, viðmiðum Adventure Travel Trade Association (ATTA) og alþjóðlegum viðmiðum Alþjóðaráðsins um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC).

Gátlistinn „Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu“ fylgir viðmiðunum og inniheldur fjölmargar hugmyndir og tillögur að aðgerðum í eftirfarandi köflum:

1. Stjórnun og starfshættir
2. Innkaup og auðlindir
3. Orka
4. Úrgangur
5. Matur
6. Umhverfi og náttúruvernd
7. Samfélag
8. Birgjar og markaður
9. Upplýsingar til viðskiptavina
10. Menning


Viðmiðin eru öllum opin og gagnleg, óháð því hvort fyrirtækin eru aðilar að Vakanum eða ekki, og þau eru frábært verkfæri fyrir öll/alla sem vilja efla sjálfbærni og gæði í ferðaþjónustu.

Hægt er að nálgast hjálpargögnin hér:

Hjálpargögn Vakans

image.png
image.png

Myndir frá Vakanum.

bottom of page